Lagði upp sigurmarkið og var aftur rekinn útaf

Arnór Ingvi Traustason leikur með toppliðinu New England Revolution.
Arnór Ingvi Traustason leikur með toppliðinu New England Revolution. Ljósmynd/New England Revolution

Arnór Ingvi Traustason kom mikið við sögu í kvöld þegar New England Revolution hélt áfram sigurgöngu sinni í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu.

New England sótti heim lið Philadelphia Union og sigraði 1:0. Sigurmarkið kom á 33. mínútu þegar Arnór Ingvi tók aukaspyrnu á vinstri kantinum og sendi boltann beint á Matt Polster sem var rétt utan markteigs hægra megin í vítateignum og skoraði með viðstöðulausu skoti.

Arnór fékk að líta gula spjaldið fyrir brot á 55. mínútu og aðeins fjórum mínútum síðar gerðist það sama. Hann var því rekinn af velli og New England var því manni færri í rúman hálftíma. Það kom þó ekki að sök því liðið landaði enn einum sigrinum.

Þetta er annað rauða spjaldið sem Arnór fær í síðustu þremur leikjum sínum í deildinni og hann er því aftur á leið í leikbann.

New England er með algjöra yfirburðastöðu á toppi Austurdeildar MLS og er þar með 52 stig, fjórtán stigum meira en Nashville sem er í öðru sæti. Þá er New England með  tíu stigum meira en Seattle Sounders sem er efst í Vesturdeildinni.

New York City, lið Guðmundar Þórarinssonar, tapaði 3:1 fyrir Nashville í kvöld en Guðmundur er á Íslandi þessa dagana og spilar með íslenska landsliðinu í undankeppni HM. New York City er í fjórða sæti Austurdeildar með 34 stsig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert