Nafn Peps Guardiola, knattspyrnustjóra Englandsmeistara Manchester City, er að finna í Pandóruskjölunum.
Ástæðan fyrir því er sú að hann greindi spænskum yfirvöldum ekki frá því að hann hefði opnað aflandsbankareikning þegar hann lék með Al Ahli í Katar undir lok ferils síns sem leikmaður.
Samkvæmt skjölunum geymdi Guardiola nærri hálfa milljón punda á bankareikningi í Andorra, og var reikningurinn opinn á meðan hann var þjálfari Barcelona á árunum 2008 til 2012.
Spænsku miðlarnir El Pais og La Sexta segja Guardiola hafa opnað reikninginn gagngert til að koma launum sínum sem hann fékk greidd þegar hann spilaði í Katar, frá 2003 til 2005, þar sem hann fékk árslaun upp á um 1,7 milljónir punda hjá Al Ahli.
Það var ekki fyrr en árið 2012 sem Guardiola tilkynnti loks aflandseignir sínar.
Í Pandóruskjölunum er hann sagður hafa stofnað bankareikning sinn í Andorra í gegnum skúffufyrirtækið Repox Investments.
Lagaráðgjafi Guardiola, Lluis Orobitg, segir í samtali við spænska fjölmiðla að reikningurinn hafi verið opnaður vegna „þess ómöguleika að fá dvalarskírteini í Katar, þar sem hann hefði ekki þurft að borga skatta“.
Orobitg sagði að Guardiola hefði ekki lagt lagt peningana inn á reikning á Spáni þar sem bókhaldari hans óttaðist að án dvalarskírteinis í Katar gæti spænski skatturinn mótmælt því að hann myndi skila skattaskýrslum sínum sem starfsmaður sem starfar erlendis þó að hann hafi sannarlega spilað sem atvinnumaður og búið í Katar á þessum tíma.