Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði eitt marka Kristianstad þegar liðið vann öruggan 4:1 sigur á Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna í dag.
Sveindís kom Kristianstad í 2:0 skömmu áður en flautað var til leikhlés. Anna Welin hafði komið liðinu í forystu snemma leiks.
Evelina Summanen kom Kristianstad í 3:0 áður en Sara Olai minnkaði muninn fyrir heimakonur í Djurgården. Jutta Rantala rak svo smiðshöggið með fjórða marki Kristianstad skömmu fyrir leikslok.
Sveindís hefur átt frábært tímabil með Kristianstad, sem er hennar fyrsta í atvinnumennsku, þar sem hún hefur skorað sex mörk og lagt upp önnur fjögur í 16 leikjum.
Kristianstad er í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar þegar liðið á eftir að spila tvo leiki á yfirstandandi tímabili.
Sveindís lék allan leikinn í fremstu víglínu Kristianstad í dag og Sif Atladóttir lék sömuleiðis allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá liðinu.