Íslenski landsliðsmaðurinn Andri Lucas Guðjohnsen var í byrjunarliði varaliðs Real Madrid er liðið gerði markalaust jafntefli á heimavelli gegn varaliði erkifjendanna í Barcelona í C-deild Spánar í fótbolta í dag.
Andri lék fyrstu 67 mínúturnar en honum tókst ekki að skora, frekar en öðrum leikmönnum í dag. Hinn 19 ára gamli Andri hefur skorað eitt mark í fimm deildarleikjum með Real á leiktíðinni.
Hann hefur slegið í gegn með íslenska landsliðinu og skorað tvö mörk í fyrstu fjórum landsleikjum, en hann hefur komið inn á sem varamaður seint í öllum fjórum leikjunum með landsliðinu til þessa.