Knattspyrnukonan Alexandra Jóhannsdóttir spilaði sinn fyrsta byrjunarliðsleik fyrir Frankfurt í þýsku 1. deildinni og hjálpaði liði sínu að vinna magnaðan 3:2-sigur gegn stórliði Bayern München.
Heimakonur í Frankfurt komust í forystu á 68. mínútu með marki Shekieru Martinez en um tíu mínútum síðar var Alexandra tekin af velli. Mínútu eftir það jafnaði Maximiliane Rall metin fyrir Bayern og hún kom svo gestunum yfir á 84. mínútu.
Tvö mörk í blálokin, frá Laura Freigang á 89. mínútu og svofrá Sjoeke Nusken í uppbótartíma tryggði hins vegar heimakonum frækinn sigur. Glódís Perla Viggósdóttir var einnig í byrjunarliðinu hjá Bayern og spilaði allan leikinn.
Nú eru þrjú lið með jafnmörg stig á toppi deildarinnar. Bayern, Leverkusen og Frankfurt eru öll með 15 stig eftir sex umferðir en næst kemur Wolfsburg með 13 stig.