Guðrún og Glódís sænskir meistarar

Guðrún Arnardóttir varð sænskur meistari í fyrsta skipti í dag.
Guðrún Arnardóttir varð sænskur meistari í fyrsta skipti í dag. AFP

Rosengård tryggði sér í dag sænska meistaratitilinn í fótbolta með 3:2-útisigri á Piteå í Íslendingaslag, þrátt fyrir að tvær umferðir séu eftir af tímabilinu. Liðið er með sjö stiga forskot á Diljá Ýr Zomers og stöllur í Häcken.

Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn með Rosengård en hún hefur leikið átta leiki frá upphafi til enda síðan hún kom til félagsins frá Djurgården á miðju tímabili.

Hún leysti Glódísi Perlu Viggósdóttur af hólmi þegar Glódís gekk í raðir Bayern München. Glódís lék tólf leiki með Rosengård á leiktíðinni áður en hún fór til Þýskalands og á því sinn þátt í meistaratitlinum.

Glódís er að vinna sinn annan meistaratitil með Rosengård og Guðrún sinn fyrsta. Meistaratitilinn er sá tólfti hjá félaginu, sem hét áður Malmö. 

Hlín Eiríksdóttir lék fyrstu 71 mínútuna með Piteå.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka