AZ Alkmaar vann sannfærandi 5:1-sigur á Utrecht á heimavelli í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Albert Guðmundsson lék allan leikinn með AZ Alkmaar og stóð heldur betur fyrir sínu. Hann lagði upp fyrsta markið á Vangelis Pavlidis strax á sjöttu mínútu.
Albert skoraði sjálfur fimmta markið á vítapunktinum á 86. mínútu, en hann hefur nú skorað þrjú mörk úr vítum á skömmum tíma því hann gerði slíkt í tvígang í 4:0-sigrinum á Liechtenstein í undankeppni HM á Laugardalsvelli.
AZ er að rétta úr kútnum eftir erfiða byrjun en liðið er í níunda sæti með 12 stig eftir átta leiki og þrjá sigra í röð.