Englendingar sektaðir og leika fyrir luktum dyrum

Wembley-leikvangurinn verður tómur næst þegar England á keppnisleik á honum.
Wembley-leikvangurinn verður tómur næst þegar England á keppnisleik á honum. AFP

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur ákveðið að banna áhorfendur á næstu tveimur keppnisleikjum enska karlalandsliðsins í knattspyrnu á heimavelli vegna óspekta stuðningsmanna þess fyrir úrslitaleik Englands og Ítalíu á EM í sumar.

Þá hefur UEFA ákveðið að sekta enska knattspyrnusambandið um 100.000 evrur af sömu orsökum, fyrir að hafa ekki haft nægilega stjórn á ástandinu innan og utan Wembley-leikvangsins í Lundúnum.

Hundruð stuðningsmanna brutu sér leið inn á Wembley fyrir leik án þess að vera með miða og fjöldi þeirra slóst við lögregluþjóna og gæsluliða á svæðinu.

Því hefur sérstakur siða- og agaeftirlitsmaður á vegum UEFA ákvarðað að refsa beri enska knattspyrnusambandinu á þennan hátt.

Síðari heimaleikurinn af þeim tveimur sem bannið nær yfir er skilorðsbundinn til næstu tveggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka