Markvörðurinn ungi, Hákon Rafn Valdimarsson, hélt marki sínu hreinu annan leikinn í röð þegar lið hans Elfsborg vann góðan 3:0 sigur á útivelli gegn Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Hákon Rafn spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið í byrjun mánaðarins áður en landsleikjahlé fór í hönd. Þá hélt hann hreinu í nágrannaslag gegn Gautaborg í 1:0 sigri.
Byrjun Hákons Rafns á atvinnumannaferlinum gæti því ekki hafa farið betur af stað þar sem tveir sigrar hafa unnist án þess að hafa fengið á sig mark.
Hákon Rafn lék allan leikinn og Sveinn Aron Guðjohnsen kom inn á sem varamaður hjá Elfsborg á 88. mínútu. Lið þeirra er í fjórða sæti þegar sjö umferðum er ólokið, aðeins tveimur stigum á eftir Malmö, Djurgården og AIK sem öll eru með 44 stig í þremur efstu sætunum.