Brugge formsatriði fyrir City

Phil Foden, Kyle Walker og Riyad Mahrez fagna einu af …
Phil Foden, Kyle Walker og Riyad Mahrez fagna einu af fimm mörkum Manchester City í kvöld. AFP

Englandsmeistarar Manchester City gerðu góða ferð til Belgíu þegar liðið vann afar öruggan 5:1 sigur gegn Belgíumeisturum Club Brugge í 3. umferð A-riðils í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld.

Bakvörðurinn Joao Cancelo kom gestunum í forystu eftir hálftíma leik. Hann fékk þá stórkostlega stungusendingu inn fyrir vörnina frá Phil Foden, tók glæsilega við boltanum og potaði honum milli fóta Simon Mignolet í marki Brugge og í netið.

Á 43. mínútu fékk City vítaspyrnu eftir að Stanley N’Soki felldi Riyad Mahrez innan vítateigs. Mahrz steig sjálfur á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi, með skoti niður í bláhornið þar sem Mignolet skutlaði sér í rangt horn.

Staðan því 2:0 í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleiknum kom svo þriðja markið. Mahrez kom boltanum þá á Kevin De Bruyne, sem gaf laglega stungusendingu á hinn bakvörð liðsins, Kyle Walker, sem var mættur í gott hlaup og setti boltann framhjá Mignolet í fjærhornið.

Á 67. mínútu skoraði varamaðurinn Cole Palmer sitt fyrsta mark í Meistaradeild Evrópu. City geystist þá í skyndisókn þar sem annar varamaður, Raheem Sterling, lagði boltann á Palmer sem skoraði með góðu vinstri fótar skoti í fjærhornið.

Riyad Mahrez skoraði tvennu í kvöld.
Riyad Mahrez skoraði tvennu í kvöld. AFP

Á 81. mínútu náðu heimamenn að skora sárabótarmark. Það gerði Hans Vanaken með skoti af stuttu færi eftir að Ruud Vormer hafði framlengt fyrirgjöf Ignace van Der Brempt.

Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Mahrez fimmta mark City og annað mark sitt þegar hann skoraði með glæsilegu skoti eftir sendingu Fernandinhos.

City létu staðar numið við fimm mörk og þægilegur fjögurra marka sigur staðreynd.

Englandsmeistararnir fara með sigrinum upp í toppsæti A-riðils, að minnsta kosti um sinn, en PSG getur endurheimt sætið með sigri gegn RB Leipzig í París í kvöld.

Markaveisla í fyrri hálfleik

Einum öðrum leik er lokið í Meistaradeildinni. Portúgalsmeistarar Sporting frá Lissabon heimsóttu Tyrklandsmeistara Besiktas í C-riðlinum.

Fyrri hálfleikur var gífurlega fjörugur þar sem fjögur mörk litu dagsins ljós.

Sebastian Coates kom gestunum í Sporting yfir eftir stundarfjórðungs leik þegar hann skoraði með skalla af stuttu færi eftir að Goncalo Inacio hafði fleytt hornspyrnu Pedro Goncalves áfram.

Cyle Larin jafnaði metin fyrir heimamenn í Besiktas á 24. mínútu þegar hann skallaði hornspyrnu Miralem Pjanic í netið.

Örskömmu síðar, á 27. mínútu, kom enn eitt markið eftir hornspyrnu. Aftur var Coates þar á ferðinni þegar hann stangaði boltann í netið eftir að Paulinho hafði fleytt hornspyrnu Goncalves til hliðar.

Miðvörðurinn Sebastian Coates skoraði tvö mörk fyrir Sporting í kvöld.
Miðvörðurinn Sebastian Coates skoraði tvö mörk fyrir Sporting í kvöld. AFP

Undir lok fyrri hálfleiks skoraði Sporting þriðja mark sitt í leiknum. Eftir VAR-athugun var vítaspyrna dæmd í kjölfar þess að Domagoj Vida handlék knöttinn innan vítateigs.

Pablo Sarabia skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni á 44. mínútu og Sporting því með 3:1 forystu í leikhléi.

Mörkin virtust ætla að láta standa á sér síðari hálfleik þegar Paulinho skoraði fjórða mark Portúgalana með góðu skoti fyrir utan teig eftir sendingu Goncalves.

Staðan orðin 4:1 og reyndust það lokatölur.

Sterkur þriggja marka útisigur Sporting því niðurstaðan. Þetta var fyrsti sigur liðsins í C-riðlinum þar sem liðið er í 3. sæti á eftir Ajax og Borussia Dortmund, sem mætast í Amsterdam klukkan 19 í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka