Mauro Icardi verður ekki í leikmannahópi Parísar Saint-Germain þegar liðið tekur á móti RB Leipzig í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld. Ástæðan fyrir því er sú að hann reynir nú að bjarga hjónabandi sínu.
Um helgina sakaði eiginkona hans, Wanda Nara, hann um framhjáhald og missti Icardi af tveimur æfingum í kjölfarið þar sem hann reyndi að ná sáttum við hana.
Hann var upphaflega hluti af leikmannahópi PSG fyrir leikinn í kvöld en franska dagblaðið L’Equipe greinir frá því að Icardi hafi dregið sig úr leikmannahópi liðsins með samþykki félagsins þar sem hann vinnur ennþá að því að greiða úr hjónabandserjum sínum.
Neymar verður einnig fjarri góðu gamni í kvöld þar sem hann kom meiddur til liðs við franska stórliðið eftir landsliðsverkefni með Brasilíu.