Fimm einstaklingar hafa verið handteknir í tengslum við líkamsárás sem belgískur stuðningsmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester City varð fyrir í Belgíu eftir leik City gegn Club Brugge í Meistaradeild Evrópu í gær.
Atvikið átti sér stað á bensínstöð í Drongen, 45 kílómetra frá Brugge þar sem leikurinn fór fram. 63 ára gömlum karlmanni sem hafði mætt á leikinn var þá veitt þungt högg í höfuðið svo hann lá óvígur eftir.
Er hann í dái eftir árásina og í bráðri lífshættu.
„Karlmaður sem var með Manchester City-trefil hafði stöðvað bílinn sinn og lagt honum á bílastæði við hraðbrautina í Drongen eftir leikinn og farið inn í verslunina þar.
Samkvæmt upphaflegum niðurstöðum rannsóknarinnar tók einn grunaða trefilinn af honum inni í versluninni og gekk hinn grunaði út úr henni með trefilinn. Í kjölfarið kom til áreksturs fórnarlambsins og nokkurra þeirra grunuðu á bílastæðinu, þar sem fórnarlambið endaði í jörðinni eftir líkamsárás.
Sjúkrabíll mætti á svæðið. Fórnarlambið, 63 ára gamall karlmaður frá Ninove, var flutt á sjúkrahús. Hann er í bráðri lífshættu. Vegna þessa handtók lögreglan fimm manns um kvöldið,“ sagði í yfirlýsingu frá saksóknara East Flanders-svæðisins í Belgíu.