Ráðist var á belgískan stuðningsmann enska knattspyrnufélagsins Manchester City á bensínstöð í Drongen í Belgíu eftir leik City og Club Brugge í Brugge þar í landi í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi.
Samkvæmt syni mannsins, sem er 63 ára gamall, réðust stuðningsmenn Brugge að honum þegar þeir sáu City-trefil um háls hans.
Einn stuðningsmanna Brugge tók trefilinn af manninum og þegar hann bað um trefilinn aftur fékk hann þungt högg í höfuðið og lá óvígur eftir.
„Eftir það flúðu gerendurnir af vettvangi og skildu föður minn eftir til að deyja,“ sagði sonur mannsins í samtali við belgíska miðilinn HLN.
Þar er maðurinn sagður vera í dái eftir árásina. Lögreglan hefur ekki haft hendur í hári gerendanna að svo stöddu.
City vann leikinn í gærkvöldi örugglega, 5:1, í 3. umferð A-riðils.