Maximilian Wittek reyndist hetja Vitesse þegar liðið vann óvæntan sigur gegn Tottenham í G-riðli Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu í Hollandi í kvöld.
Leiknum lauk með 1:0-sigri Vitesse en Wittek skoraði sigurmark leiksins á 78. mínútu.
Tottenham hefur ekki gengið vel í Sambandsdeildinni á tímabilinu en liðið hefur aðeins unnið einn leik í fyrstu þremur umferðunum.
Rennes er í efsta sæti riðilsins með 7 stig, Vitesse er með 6 stig, Tottenham er með 4 stig og Mura rekur lestina án stiga.