AC Milan sigraði Bologna 4:2 á útivelli í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í kvöld. Með sigrinum fór Milan á toppinn en þetta var fimmti sigurleikur liðsins í röð. Milan er einnig annað af tveimur taplausu liðum deildarinnar.
Portúgalinn Rafael Leao kom Milan yfir á 16. mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Zlatan Ibrahimovic. Fjórum mínútum síðar fékk svo Adama Soumaoro beint rautt spjald í liði Bologna fyrir ljóta tæklingu. Á 35. mínútu kom hægri bakvörðurinn Davide Calabria Milan svo í 2:0 með skoti rétt utan teigs.
Í upphafi síðari hálfleiks varð svo Ibrahimovic fyrir því óláni að skora sjálfsmark þegar hann reyndi að skalla hornspyrnu í burtu og staðan því orðin 2:1. Þremur mínútum síðar jafnaði svo Musa Barrow metin fyrir Bologna. Á 58. mínútu fékk Bologna svo annað rautt spjald þegar Roberto Soriano var vikið af velli.
Eftir þetta gengu Milan menn á lagið og bættu við tveimur mörkum. Fyrst var það Ismael Bennacer og svo Ibrahimovic sem skoruðu.
Lokatölur því 4:2 sigur Milan í rosalegum leik.