José Mourinho knattspyrnustjóri Roma á Ítalíu hefur átt skemmtilegri sólarhringa á ferlinum en þá síðustu.
Á fimmtudagskvöldið beið lið hans ótrúlegan ósigur gegn Noregsmeisturum Bodö/Glimt, 6:1, í Sambandsdeild Evrópu og í dag fékk Mourinho rauða spjaldið þegar Roma mætti Napoli í grannaslag í ítölsku A-deildinni.
Mourinho fékk tvisvar gula spjaldið vegna mótmæla á hliðarlínunni og var þar með rekinn upp í stúku á 82. mínútu leiksins. Lokatölur urðu 0:0 en Mourinho getur þó glaðst yfir því að hans lið skuli vera það fyrsta sem nær stigi gegn Napoli á þessu tímabili.
Napoli og AC Milan eru bæði með 25 stig af 27 mögulegum eftir níu umferðir og eru að stinga önnur lið af í deildinni. Roma er með 16 stig í fjórða sætinu, stigi á eftir Inter sem á leik til góða.