Nice vann frábæran 3:2 sigur gegn Lyon í frönsku 1. deildinni í knattspyrnu karla í dag eftir að hafa verið 0:2 undir á 80. mínútu.
Karl Toko Ekambi hafði komið Lyon í forystu á 35. mínútu og Houssem Aouar tvöfaldaði forskotið á 68. mínútu.
Á 81. mínútu minnkaði varamaðurinn Youced Atal muninn fyrir Nice og skömmu síðar fékk Tino Kadewere í liði Lyon beint rautt spjald fyrir ljótt brot.
Hlutirnir versnuðu enn fyrir Lyon þegar Andy Delort jafnaði metin á 89. mínútu með marki úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir að Emerson braut á Atal innan vítateigs.
Heimamenn í Nice voru ekki saddir þar sem varamaðurinn Evann Guessand skoraði þriðja mark Nice á 13 mínútum á annarri mínútu uppbótartíma og tryggði liðinu magnaðan 3:2 sigur.
Eftir sigurinn er Nice í öðru sæti frönsku deildarinnar, en þó átta stigum á eftir toppliði Parísar Saint-Germain.