Skoraði tvennu í fyrsta byrjunarliðsleiknum (myndskeið)

Sveinn Aron Guðjohnsen í leik með íslenska A-landsliðinu fyrr í …
Sveinn Aron Guðjohnsen í leik með íslenska A-landsliðinu fyrr í mánuðinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóknarmaðurinn Sveinn Aron Guðjohnsen þakkaði traustið svo um nemur þegar hann var í byrjunarliði Elfsborg í fyrsta skipti. Sveinn Aron skoraði tvö mörk í öruggum 3:0 sigri, þar sem Hákon Rafn Valdimarsson stóð milli stanganna hjá Elfsborg.

Sveinn Aron kom Elfsborg yfir strax á 4. mínútu þegar hann stýrði fyrirgjöf Stefan Strand í netið.

Eftir tæplega hálftíma leik tvöfaldaði Sveinn Aron forystu Elfsborg þegar hann skallaði fyrirgjöf Jeppe Okkels í netið.

Skömmu fyrir leikhlé skoraði Johan Larsson þriðja markið.

Hálfleikstölur því 3:0 og reyndust það sömuleiðis lokatölur.

Sveinn Aron hefur nú skorað þrjú mörk í sjö deildarleikjum, sem verður að teljast ansi gott þar sem hann hefur aðeins spilað 104 mínútur í þessum leikjum, sem gerir mark á tæplega stundarfjórðungs fresti.

Lék hann fyrstu 61 mínútuna í leiknum í dag.

Hákon Rafn Valdimarsson hefur þá farið frábærlega af stað þar sem hann hefur byrjað síðustu þrjá leiki í marki Elfsborg og einfaldlega skellt í lás, enda haldið markinu hreinu í þeim öllum.

Mörk Sveins Arons má sjá hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert