Arsenal er búið að tryggja sér sæti í fjórðungsúrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu karla eftir að hafa unnið þægilegan 2:0 sigur gegn Leeds United á Emirates-vellinum í Lundúnum í kvöld.
Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Calum Chambers Arsenal yfir á 55. mínútu eftir sendingu frá Nicolas Pépé.
Eddie Nketiah tvöfaldaði svo forystu Arsenal á 69. mínútu og þar við sat.
Chelsea og Southampton etja nú kappi í 16-liða úrslitunum ásamt QPR og Sunderland. Vítaspyrnukeppni fer brátt í hönd í báðum leikjunum.