Chelsea og Sunderland unnu í vítaspyrnukeppni

Reece James tryggði Chelsea sigurinn í vítaspyrnukeppni í kvöld.
Reece James tryggði Chelsea sigurinn í vítaspyrnukeppni í kvöld. AFP

Chelsea og Sunderland eru bæði búin að tryggja sér sæti í fjórðungsúrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu karla með sigrum eftir vítaspyrnukeppni í leikjum þeirra í 16-liða úrslitum keppninnar í kvöld.

Chelsea bar sigurorð af Southampton eftir að staðan var 1:1 að loknum venjulegum leiktíma.

Kai Havertz kom Chelsea yfir skömmu fyrir leikhlé en Ché Adams jafnaði metin strax í upphafi síðari hálfleiks.

Chelsea hafði svo betur, 4:3, í vítaspyrnukeppni, þar sem Marcos Alonso, Callum Hudson-Odoi, Ben Chilwell og Reece James skoruðu úr spyrnum Chelsea á meðan Adam Armstrong, Shane Long og Oriol Romeu skoruðu fyrir Southampton.

Will Smallbone og Theo Walcott klúðruðu vítaspyrnum Southampton og Mason Mount klúðraði fyrir Chelsea.

Í leik Queens Park Rangers og Sunderland var markalaust að loknum venjulegum leiktíma en Sunderland vann vítaspyrnukeppnina 3:1.

Sunderland skoraði úr öllum þremur spyrnum sínum þegar Aiden McGeady, Ross Stewart og Alex Pritchard skoruðu allir.

Charlie Austin, Ilias Chair og Yoan Barbet klúðruðu hins vegar fyrir QPR og Lyndon Dykes var sá eini sem náði að skora úr vítaspyrnu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert