Amnesty-samtökin vilja að David Beckham, nýr sendiherra heimsmeistaramótsins í knattspyrnu karla í Katar árið 2022, láti í sér heyra varðandi þau mannréttindabrot sem viðgangast þar í landi.
„Staða mannréttinda í Katar veldur áhyggjum, allt frá langvarandi misnotkun í garð farandverkamanna til hafta á málfrelsi og glæpavæðingu sambanda af sama kyni.
Það kemur ekki á óvart að David Beckham vilji vera hluti af jafn stórum knattspyrnuviðburði, en við viljum hvetja hann til þess að kynna sér áhyggjuvaldandi stöðu mannréttinda í Katar og að hann sér reiðubúinn að ræða opinberlega um það,” sagði Sacha Deshmukh, forstöðumaður Amnesty-samtakanna, í yfirlýsingu.
Beckham var ráðinn sendiherra mótsins á dögunum og mun fá myndarlega greitt fyrir.
Allt frá því að Katar var úthlutað HM 2022 árið 2010 hafa mannréttindabrot þjóðarinnar verið til umræðu, án þess þó að nokkuð virðist hafa breyst í þeim efnum á þeim rúma áratug sem er liðinn frá því.
Amnesty segir að þúsundir dauða farandverkamanna, sem hafa hjálpað til við að byggja þann fjölda leikvanga sem verður spilað á á mótinu, hafi til að mynda ekki verið rannsakaðir til hlítar.