Elfsborg áfram á sigurbraut

Hákon Rafn Valdimarsson hefur unnið alla fjóra leiki sína með …
Hákon Rafn Valdimarsson hefur unnið alla fjóra leiki sína með Elfsborg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Atvinnumannaferill markvarðarins unga, Hákons Rafns Valdimarssonar, gæti ekki hafa farið betur af stað. Í kvöld spilaði hann sinn fjórða byrjunarliðsleik í röð og þrátt fyrir að hafa í honum fengið á sig sitt fyrsta mark hafa allir fjórir leikirnir unnist.

Í kvöld bar liðið sigurorð af Degerfors, 2:1 á útivelli.

Hákon Rafn lék allan leikinn í marki Elfsborg og Sveinn Aron Guðjohnsen kom inn á sem varamaður á 80. mínútu.

Í fyrstu þremur leikjum sínum hafði Hákon Rafn haldið marki sínu hreinu en Victor Edvardsen varð fyrstur til þess að skora framhjá honum í sænsku úrvalsdeildinni er hann minnkaði muninn fyrir Degerfors í leik kvöldsins.

Elfsborg er í harðri baráttu um sænska meistaratitilinn þar sem liðið er með 48 stig í öðru sæti, jafnmörg og Malmö, þegar fimm umferðum er ólokið.

Einn Íslendingur til viðbótar var í eldlínunni í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Ari Freyr Skúlason kom inn á í hálfleik hjá Norrköping í 2:2 jafntefli gegn Mjällby.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert