Ítalska knattspyrnufélagið Venezia tilkynnti í dag að samningur Bjarka Steins Bjarkasonar við félagið hefði verið framlengdur til sumarsins 2024.
Bjarki, sem er 21 árs gamall kantmaður, kom til Venezia, eða Feneyja eins og borgin nefnist jafnan á íslensku, frá Akranesi síðsumars 2020 og hann tók þátt í að koma liðinu upp í A-deildina á síðasta tímabili. Bjarki hefur ekki spilað ennþá í A-deildinni á þessu keppnistímabili en verið í leikmannahópi liðsins í flestum leikjanna.
Bjarki hefur að undanförnu leikið með 21-árs landsliði Íslands, nú síðast gegn Portúgal, og á sex landsleiki að baki í þeim aldursflokki. Hann ólst upp hjá Aftureldingu og lék með liðinu kornungur í 2. deild en kom til liðs við ÍA fyrir tímabilið 2018 og lék 41 deildaleik fyrir félagið, 25 þeirra í úrvalsdeildinni, áður en hann fór til Ítalíu.