Andrea Thorisson og stöllur hennar í sænska liðinu Kalmar tryggðu sér í dag sæti í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu þar í landi með því að gera 1:1 jafntefli gegn Uppsala í toppslag B-deildarinnar.
Með jafnteflinu er það ljóst að Kalmar hafnar í öðru sæti deildarinnar þar sem Uppsala og Brommapojkarna í sætunum fyrir neðan eru sjö stigum á eftir Kalmar þegar aðeins tvær umferðir eru eftir í deildinni.
Umeå var fyrir nokkru síðan búið að tryggja sér sigur í B-deildinni. Þrjú lið fara upp úr deildinni í ár þar sem fjölga á liðum um tvö í úrvalsdeildinni.
Andrea hefur verið á meðal lykilmanna Kalmar á tímabilinu en var fjarri góðu gamni í dag.