Sergio Agüero, sóknarmaður Barcelona, þurfti að fara af velli í fyrri hálfleik eftir að hafa fundið fyrir óþægindum fyrir brjósti í leik liðsins gegn Alavés í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu karla í gærkvöldi.
Agüero hélt um bringu sína og virtist eiga í vandræðum með að anda. Læknateymi Barcelona hraðaði sér á völlinn og hlúði að honum í nokkrar mínútur.
Hann fór svo af velli fyrir Philippe Coutinho og var fluttur á spítala, þar sem framkvæmdar voru rannsóknir á hjarta hans, að því er kom fram í tilkynningu frá Barcelona í gær.
Leiknum lauk með 1:1 jafntefli á Nývangi í Barcelona í gær, í fyrsta leiknum undir stjórn bráðabirgðastjórans Sergi Barjuán.