Landsliðskonurnar Ingibjörg Sigurðardóttir og Amanda Andradóttir urðu í dag bikarmeistarar með norska félaginu Vålerenga þegar liðið bar sigurorð af Sandviken í úrslitaleik bikarkeppninnar þar í landi í dag.
Marie Markussen kom Vålerenga yfir strax á 13. mínútu og Dejana Stefanovic tvöfaldaði forystuna skömmu fyrir leikhlé.
Marit Lund minnkaði muninn fyrir Sandviken snemma í síðari hálfleik og fékk svo upplagt tækifæri til þess að jafna metin á 85. mínútu þegar hún brenndi af vítaspyrnu.
Vålerenga náði eftir þetta að halda út og tryggði sér 2:1 sigur og þar með norska bikarmeistaratitilinn.
Ingibjörg lék allan leikinn í hjarta varnar liðsins en Amanda var ónotaður varamaður.