FC Köbenhavn vann í dag sannfærandi 3:0-sigur á Vejle í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta á Parken, þjóðarleikvangi Dana, í höfuðborginni.
Hákon Arnar Haraldsson, 18 ára Skagamaður, var í fyrsta skipti í byrjunarliði FC Köbenhavn í deildinni og nýtti hann heldur betur tækifærið.
Hákon skoraði annað markið á 29. mínútu, hans fyrsta mark í meistaraflokki. Hákon hefur raðað inn mörkum fyrir unglingalið Kaupmannahafnarfélagsins undanfarin ár.
Hákon lék fyrstu 73 mínúturnar og var valinn maður leiksins af félaginu í leikslok. Mínútu áður en Hákon fór af velli kom Andri Fannar Baldursson inn á sem varamaður. Ísak Bergmann Jóhannesson var hinsvegar ekki í leikmannahópi FCK.
Liðið er í 2. sæti deildarinnar með 28 stig, sex stigum á eftir toppliði Midtjylland.