Augsburg vann sannfærandi 4:1-sigur á Stuttgart í þýsku 1. deildinni í fótbolta í dag. Sigurinn var kærkominn fyrir Augsburg en liðið er með níu stig eftir tíu leiki, í 16. sæti af 18 liðum og í mikilli fallbaráttu.
Íslenski landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason átti stóran þátt í sigrinum því hann lagði upp þriðja mark Augsburg á 72. mínútu og skoraði sjálfur fjórða markið á 81. mínútu. Alfreð var í byrjunarliði Augsburg í fyrsta skipti á leiktíðinni.
Markið er það fyrsta sem Alfreð skorar í deildinni frá því í febrúar á síðasta ári en hann hefur mikið glímt við meiðsli að undanförnu og tókst ekki að skora deildarmark á síðustu leiktíð. Framherjinn lék allan leikinn og var besti maður vallarins að mati Sofascore með 8,2 af 10 í einkunn.