Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic segist ekki vera farinn að leiða hugann að starfslokum í knattspyrnunni en Ibrahimovic varð fertugur á dögunum.
Ibrahimovic hefur enn mikið fram að færa á vellinum og er þýðingarmikill leikmaður hjá AC Milan, einu af stórveldunum í Evrópu. Hefur hann skorað þrjú mörk í fimm leikjum í upphafi tímabilsins og skoraði beint úr aukaspyrnu gegn Roma um helgina.
„Galdurinn á bak við langan feril er í mínu tilfelli hugarfarið. Nú vil ég sanna að 40 er bara tala og ég geti haldið áfram að vinna við það sem ég hef ástríðu fyrir. Mig langar ekki að láta staðar numið fyrr en ég kemst ekki í liðið og er raunverulega búinn að vera í boltanum,“ sagði Ibrahimovic við ítalska blaðamenn í gær.