Kolbeinn spilar ekki meira á árinu

Kolbeinn Sigþórsson spilar ekki meira með Gautaborg á árinu.
Kolbeinn Sigþórsson spilar ekki meira með Gautaborg á árinu. AFP

Kolbeinn Sigþórsson, leikmaður Gautaborgar í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, mun ekki spila meira með liðinu á þessu ári. Þetta kom fram í bréfi sem Fredrik Rips, umboðsmaður Kolbeins, sendi fréttastofu Vísis.

Málefni Kolbeins hafa verið mikið í umræðunni undanfarna mánuði en stjórn KSÍ meinaði leikmannaninum að taka þátt í verkefnum íslenska karlalandsliðsins í september.

Í aðdraganda landsleikjanna kom í ljós að Kolbeinn hafði greitt tveimur íslenskum konum miskabætur fyrir meint ofbeldisbrot en atvikið átti sér stað á skemmistað í Reykjavík árið 2017.

Hann var í kjölfarið settur í bann hjá félagsliði sínu Gautaborg en 21. september greindi sænska félagið frá því að það ætlaði sér að standa við bakið á Kolbeini og styðja hann í endurhæfingu vegna þeirra mála sem hafði glímt við á Íslandi.

Í bréfi umboðsmanns Kolbeins kemur meðal annars fram að leikmanninum hafi ekki verið bannað að æfa með Gautaborg og að honum sé meira en velkomið að æfa með liðinu.

Hann þurfi hins vegar að sinna sinni endurhæfingu og að hann muni ekki spila meira með Gautaborg á árinu en samningur hans í Svíþjóð rennur út um áramótin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert