Messi ætlar að snúa aftur til Barcelona

Lionel Messi leikur nú með París SG.
Lionel Messi leikur nú með París SG. AFP

Argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi kveðst ætla að snúa aftur til Barcelona þegar ferli hans hjá París SG lýkur en hann samdi við franska stórliðið fyrr á þessu liði til sumarsins 2023.

Messi lék með Barcelona frá 13 ára aldri og fyrir aðallið félagsins skoraði hann 672 mörk í 778 leikjum og vann 34 titla með því.

„Ég veit ekki hvort ég verð aftur leikmaður með Barcelona þegar samningur minn hjá PSG er á enda. En það sem er nánast staðfest og öruggt er að við munum flytja aftur til Barcelona og munum búa þar. Það er það sem ég og eiginkona mín viljum gera," sagði Messi við spænsku sjónvarpsstöðina Sport.

„Ég hef alltaf sagt að ég myndi vilja hjálpa félaginu á hvaða hátt sem er, á hvern þann hátt sem ég get nýst því. Ég myndi vilja verða tæknilegur stjórnandi á einhverjum tímapunkti en ég veit ekki hvort það yrði hjá Barcelona. Ef sá möguleiki verður fyrir hendi þá væri það frábært því þetta er félagið sem ég elska og vonast til að haldi áfram að verða eitt af bestu fótboltaliðum heims," sagði Messi.

Joan Laporta, forseti Barcelona, sagðist í október hafa vonast eftir því að Messi myndi spila áfram með félaginu án þess að þiggja laun, áður en niðurstaðan varð sú að hann færi á brott. Messi sagði við Sport að þetta hefði aldrei verið til umræðu.

„Þeir báðu mig aldrei um að spila launalausts fyrir félagið. Þeir báðu mig um að taka á mig helmingslækkun launa og ég samþykkti það án nokkurra vandræða. Við vildum hjálpa félaginu, ég og fjölskylda mín vildum vera áfram í Barcelona. Enginn bað mig um að spila launalaust og orð forsetans eru óviðeigandi. Mér sárnaði þau og það var óþarfi hjá honum að segja þetta," sagði Lionel Messi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert