Sepp Blatter, fyrrverandi forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, og Michel Platini, fyrrverandi forseti Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, hafa báðir verið ákærðir fyrir fjársvik og fleiri brot í Sviss.
Saksóknarar í Sviss segja að Blatter hafi með ólögmætum hætti skipulagt millifærslu á tveimur milljónum svissneskra franka til Platini árið 2011.
Það hafi skaðað eignir FIFA og valdið því að Platini hafi auðgast með ólöglegum hætti.
Blatter og Platini, sem hafa báðir hafnað því að hafa gert nokkuð rangt, munu þurfa að mæta fyrir rétt í Bellinzona í Sviss þar sem málaferlin fara fram.
Báðir voru þeir bannaðir alfarið frá afskiptum af knattspyrnu í september árið 2015 af siðanefnd FIFA þegar rannsókn á spillingu þeirra hófst. Bannið gildir til ársins 2023.
Þegar þeir hlutu þetta bann lauk 17 ára setu Blatter í forsetastól FIFA og sömuleiðis forsetaframboði Platini, sem hugðist leysa Blatter af hólmi eftir að hafa sjálfur verið forseti UEFA í tæp níu ár.