Evrópumeistarar Chelsea lenti í talsverðum vandræðum með Svíþjóðarmeistara Malmö í H-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld.
Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Hakim Ziyech gestunum í Chelsea yfir snemma í síðari hálfleik, á 56. mínútu.
Þá stýrði hann góðri fyrirgjöf Callum Hudson-Odoi í netið af stuttu færi.
Chelsea var við stjórn allan leikinn og hefði hæglega getað bætti við mörkum en allt kom fyrir ekki reyndist mark Ziyech sigurmarkið í 1:0 sigri.
Chelsea er með 9 stig að loknum fjórum umferðum, jafnmörg stig og Juventus í efsta sætinu, en Juventus á þó leik inni gegn Zenit St. Pétursborg klukkan 20 í kvöld.
Einum öðrum leik er lokið í Meistaradeildinni.
Þýska félagið Wolfsburg og Austurríkismeistarar Salzburg mættust í hörkuleik í G-riðilinum þar sem heimamenn í Wolfsburg unnu nauman sigur og opnuðu þar með allt upp á gátt í riðlinum.
Þýski landsliðsmaðurinn Bote Ridle Baku kom Wolfsburg yfir strax á fjórðu mínútu áður en Maximilan Wöber jafnaði metin fyrir gestina eftir hálftíma leik.
Eftir klukkutíma leik kom hinn þýsk-enska sóknarmaður Lukas Nmecha Wolfsburg yfir að nýju og tryggði þannig 2:1 sigur.
Salzburg er þrátt fyrir tapið áfram á toppi G-riðils með 7 stig að loknum fjórum leikjum og Wolfsburg er í öðru sæti með 5 stig.
Klukkan 20 í kvöld mætast svo hið spænska Sevilla og Frakklandsmeistarar Lille. Fyrir leikinn er Sevilla með 3 stig og Lille með 2 stig og sigur í leik kvöldsins því gífurlega mikilvægur og til þess fallinn að koma öllu í járn þegar tvær umferðir verða eftir.