Barcelona vann bráðnauðsynlegan sigur gegn Dynamo Kyiv í Kænugarði í Úkraínu í E-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld.
Sigurmarkið skoraði ungstirnið Ansu Fati á 70. mínútu.
Lokatölur 1:0 og Barcelona þar með komið upp í annað sæti riðilsins.
Í hinum leik riðilsins mættust Bayern München og Benfica í München.
Þar vantaði ekkert upp á fjörið í fyrri hálfleik.
Robert Lewandowski og Serge Gnabry komu Bæjurum í 2:0 með mörkum á 26. og 32. mínútu.
Sex mínútum síðar, á 38. mínútu, minnkaði Morato muninn fyrir Benfica.
Í uppbótartíma fékk Bayern svo vítaspyrnu eftir að Lucas Veríssimo handlék knöttinn innan vítateigs.
Lewandowski steig á vítapunktinn en Odisseas Vlachodimos í marki Benfica gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna.
Staðan því 2:1 í hálfleik.
Fjörið var enn meira í síðari hálfleik þar sem Leroy Sané skoraði snemma í hálfleiknum og Lewandowski bætti upp fyrir vítaklúðrið með öðru marki sínu í leiknum.
Darwin Nunez minnkaði muninn fyrir Benfica þegar rúmur stundarfjórðungur lifði leiks en skömmu fyrir leikslok fullkomnaði Lewandowski þrennu sína og sá til þess að Bayern fór með öruggan 5:2 sigur af hólmi.
Bayern er þar með búið að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Það er Juventus einnig búið að gera eftir 4:2 sigur á Zenit frá Sankti Pétursborg í H-riðlinum í kvöld.
Paulo Dybala skoraði tvö mörk og Federico Chiesa og Álvaro Morata komust einnig á blað á meðan Leonardo Bonucci skoraði sjálfsmark fyrir Zenit og Sardar Azmoun skoraði sárabótarmark í blálokin.
Juventus er líkt og Bayern með fullt hús stiga í riðli sínum eftir að hafa unnið alla fjóra leiki sína til þessa.
Í G-riðlinum vann Lille svo frækinn útisigur gegn Sevilla.
Lucas Ocampos kom heimamönnum yfir eftir stundarfjórðungs leik áður en Jonathan David jafnaði metin úr vítaspyrnu skömmu fyrir leikhlé.
Jonathan Ikoné skoraði svo sigurmark Lille snemma í síðari hálfleik og opnaði allt enn frekar upp á gátt í riðlinum.
Salzburg er á toppnum með 7 stig, Lille og Wolfsburg eru bæði með fimm stig og Sevilla er á botninum með 3 stig og því eiga öll liðin enn góða möguleika á að komast í 16-liða úrslitin.