Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kveðst óánægður með sjálfan sig að hafa veifað til Diego Simeone, stjóra Atlético Madríd, eftir að Simeone vildi ekki taka í höndina á Klopp eftir leik liðanna í Meistaradeild Evrópu fyrir tveimur vikum.
Simeone sagði síðar að honum þætti það falskt að þykjast sýna íþróttamennsku með því að taka í höndina á stjórum annarra liða eftir leiki.
„Það sem hann sagði er nákvæmlega eins og það er. Ég ber mikla virðingu fyrir því sem Diego er að gera og ég sagði það fyrir og eftir leik.
Þar sem við viljum báðir halda einkalífinu okkar aðskildu frá fótbolta þá ættum við ekki að tala mikið um hvern annan. Við getum það auðvitað en við þekkjum hvorn annan ekki sérlega vel, það er málið,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í dag.
Klopp sagði þar einnig að hann veitti því skilning að Simeone hafi ekki viljað takast í hendur að leik loknum. „Þetta er eins og ég sagði eftir leikinn í Madríd, ef ég hefði vitað það fyrir leikinn að hann gerir þetta ekki þá hefði ég ekki reynt það.
Ég reyndi það og svo veifaði ég til hans eða eitthvað í þeim dúr, það var ekki nauðsynlegt af minni hálfu og ég var ekki ánægður með sjálfan mig þar.
En ég veit að við erum báðir tilfinningaríkir og þannig leið mér þá. Þetta var ekki nauðsynlegt hjá mér en nú veit ég að hann villi ekki takast í hendur eftir leikinn þannig að það er ekkert mál.“
Hann sagðist þó búast við því að hann og Simeone myndu takast í hendur fyrir síðari leik liðanna á Anfield í Liverpool annað kvöld.