Ronaldo bjargvætturinn á Ítalíu

Cristiano Ronaldo fagnar öðru marki sínu í kvöld.
Cristiano Ronaldo fagnar öðru marki sínu í kvöld. AFP

Cristiano Ronaldo var enn á ný hetja Manchester United þegar hann jafnaði metin í uppbótartíma venjulegs leiktíma og tryggði liðinu þannig 2:2 jafntefli gegn Atalanta í Bergamo í fjórðu umferð F-riðils Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld. Áður hafði hann jafnað í 1:1 í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Heimamenn í Atalanta náðu forystunni eftir tólf mínútna leik. Duván Zapata komst þá í góða stöðu utarlega í teignum, fór vel með boltann, lagði hann út á Josip Ilicic sem skaut laust að marki, beint á David de Gea sem varði skotið klaufalega í markið.

Eftir að hafa byrjað leikinn af nokkrum krafti var sem flestur vindur væri úr gestunum frá Manchester.

Atalanta náði góðum tökum á leiknum og fékk nokkur færi til að bæta við marki.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks jafnaði Man United hins vegar metin. Cristiano Ronaldo kom boltanum þá til Mason Greenwood sem sendi hann rakleitt á Bruno Fernandes í vítateignum, hann tók stórglæsilega hælspyrnu aftur fyrir sig á Ronaldo sem kláraði frábærlega í bláhornið.

Staðan því 1:1 í hálfleik.

Á 56. mínútu kom Zapata boltanum í markið að nýju en hann var flaggaður rangstæður. Eftir að atvikið var skoðað gaumgæfilega af VAR var mark dæmt tveimur mínútum síðar. José Palomino sendi boltann inn fyrir, Eric Bailly var of framarlega, Harry Maguire spilaði Zapata réttstæðan og náði svo ekki að tækla boltann frá sem endaði með því að Zapata mokaði boltanum framhjá de Gea af örstuttu færi.

Atalanta virtist vera að sigla góðum sigri í höfn en Ronaldo var ekki á því. Í uppbótartíma, eftir darraðadans við vítateigslínuna náði Greenwood að pota boltanum til Ronaldo sem náði stórkostlegu skoti á lofti niður í bláhornið.

Staðan skyndilega orðin 2:2 og það reyndust lokatölur í æsilegum leik.

Í hinum leik F-riðils, sem fór fram á sama tíma á Spáni, mættust Villarreal og Young Boys frá Sviss.

Étienne Capoue kom heimamönnum í Villarreal yfir á 36. mínútu þegar hann fylgdi eftir skalla Boulaye Dia sem Guillaume Faivre í marki Young Boys hafði varið út í vítateiginn.

Villarreal leiddi því með einu marki í hálfleik.

Undir lok leiksins, á 89. mínútu, innsiglaði Arnaut Danjuma sigur Villarreal og lokatölur því 2:0.

Duván Zapata og José Palomino fagna marki þess fyrrnefnda.
Duván Zapata og José Palomino fagna marki þess fyrrnefnda. AFP
Cristiano Ronaldo fagnar jöfnunarmarki sínu.
Cristiano Ronaldo fagnar jöfnunarmarki sínu. AFP
Josip Ilicic fagnar marki sínu.
Josip Ilicic fagnar marki sínu. AFP
Stuðningsmenn Atalanta kátir í kvöld.
Stuðningsmenn Atalanta kátir í kvöld. AFP
Atalanta 2:2 Man. Utd opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert