Fernando Roig, forseti spænska knattspyrnufélagsins Villarreal, sér það ekki gerast að Unai Emery, knattspyrnustjóri félagsins, yfirgefi það til þess að taka við stjórnartaumunum hjá enska félaginu Newcastle United.
„Ég held ekki. Hann er fagmaður og við eigum tvo stóra leiki á næstunni. Ég geri ráð fyrir því að hann sé upptekinn við að undirbúa leikinn gegn Young Boys,“ sagði Roig í samtali við Daily Mail.
Liðið á leik gegn Young Boys í Meistaradeild Evrópu í kvöld og svo gegn Getafe í spænsku 1. deildinni á sunnudag.
Í gag greindi Sky Sports frá því að Emery hafi átt í viðræðum við stjórnarmenn Newcastle og að frekari viðræður væru áætlaðar á morgun.
„Ég hef ekki eina einustu hugmynd um hvort það sé búið að tala við hann. Það sem ég veit er að hann er samningsbundinn okkur og samningar eru til þess að virða. Ég efast ekkert um fagmennsku Unai hvað það varðar,“ bætti Roig við.
Takist Newcastle að sannfæra Emery um að taka við Newcastle þyrfti félagið að greiða Villarreal fimm milljónir punda til þess að leysa hann undan samningi sínum við Villarreal.