Jordan Henderson, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir að Luis Suárez hafi hjálpað honum að þróast sem leikmaður þegar þeir voru samherjar hjá liðinu á árunum 2011 til 2014.
Liverpool fær Atlético Madríd í heimsókn á Anfield í Meistaradeild Evrópu annað kvöld. Suárez er leikmaður Madrídarliðsins og átti stóran þátt í því að liðið vann spænska meistaratitilinn á síðasta tímabili.
„Ég held að við vitum öll að hann er búinn að vera toppleikmaður í langan tíma, hann átti svo mörg frábær augnablik hjá Liverpool. Ég lærði margt af honum þegar hann var hér, ég er nokkuð náinn honum og ræði stundum við hann.
En hann er heimsklassa leikmaður og veldur vörnum alls konar vandræðum. Hann er alltaf í grennd við markið og ef hann fær færi er ég viss um að hann mun nýta það.
Við þurfum að vera á varðbergi gagnvart honum en ekki bara honum, þeir eru með glás af heimsklassa leikmönnum. En Luis er sannarlega toppframherji og veldur hvaða liði sem er vandræðum,“ sagði Henderson á blaðamannafundi í dag.
Fyrirliðinn ræddi nánar um áhrif Suárez á sig sem knattspyrnumann.
„Ég tel að hann hafi hjálpað mér mikið þegar hann var hjá Liverpool. Andlega hliðin, hvernig hann var á æfingum, hann vildi alltaf vinna, hvernig hann spilaði í gegnum alls kyns meiðsli og verki.
Hann vildi bara fara út á völl, spila fótbolta og gera sitt besta fyrir liðið. Ég tileinkaði mér margt í hans fari þegar hann var hérna, ég tel að hann hafi hjálpað mér gífurlega og bætt sjálfstraust mitt sem leikmanns,“ sagði Henderson einnig.