„Ég áttaði mig fljótlega á því að þetta væri alvarlegt,“ sagði Geir Inge Heggestad, upplýsingafulltrúi norska knattspyrnufélagsins Sogndal, í samtali við norska miðilinn VG í morgun.
Emil Pálsson, leikmaður Sogndal, fór í hjartastopp í leik liðsins gegn gegn Stjördals-Blink í norsku B-deildinni í knattspyrnu á Fosshaugane-vellinum í Sogndal í gær en atvikið átti sér stað eftir tólf mínútna leik.
Emil lá meðvitundarlaus á vellinum í tíu mínútur á meðal læknar, sjúkraþjálfarar og sjúkraflutningamenn hlúðu að honum en hann var að lokum fluttur með meðvitund á Haukeland-spítalann í Bergen þar sem hann dvelur nú.
„Allir starfsmenn félagsins komu saman á æfingasvæðinu í morgun til þess að fara yfir stöðuna,“ sagði Heggestad.
„Leikmönnum og starfsliði var boðin áfallahjálp og það er mikilvægt að ræða svona hluti, ekki byrgja þá inni. Við höfum ekkert heyrt af Emil annað en að hann var með meðvitund og á lífi þegar honum var flogið til Bergen. Við bíðum þolinmóð eftir frekari fréttum og ég á von á því að þær muni berast í dag.“
Heggestad var á hliðarlínunni hjá norska liðinu þegar Emil hneig niður.
„Ég áttaði mig strax á því að þetta væri alvarlegt. Það voru einhverjir sem héldu að hann hefði fengið olnbogaskot því hann hélt um andlitið en ég vissi strax að það væri eitthvað mikið að.
Þetta var fagmannalega að verki staðið og það eiga allir stórt hrós skilið. Allir á vellinum brugðust hárrétt við aðstæðunum. Við höfum fundið fyrir mikilli velvild og hlýju og það hafa margir hrósað okkur fyrir viðbrögð félagsins,“ bætti Heggestad við.