Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að á sínum 30 árum í bransanum hafi hann aldrei verið með leikmenn í búningsklefum sínum þar sem það myndi teljast til vandamáls að vera með samkynhneigðan leikmann innan raða liðs.
Í síðasta mánuði kom Josh Cavallo, leikmaður ástralska A-deildarliðsins Adelaide United, út úr skápnum og er þar með eini karlkyns atvinnumaðurinn í knattspyrnu í heiminum sem spilar enn, en hann er 21. árs gamall.
Á blaðamannafundi í gær ræddi Klopp þessi málefni.
„Auðvitað finnst mér að þetta eigi ekki að vera svona. Þetta er stór frétt en það er í raun og veru vandamálið sem við stöndum andspænis, að þetta er ekki algengt eða að hann þarf að tilkynna það í stað þess að fá að lifa sínu einkalífi þar sem enginn spáir í þessu,“ sagði hann.
Klopp bætti því við að liðin sem hann hafi þjálfað á ferlinum myndu taka samkynhneigðum leikmönnum opnum örmum.
„Það sem ég get sagt ykkur er að á 30 árum í bransanum hef ég aldrei verið með búningsklefa þar sem þetta hefði verið nokkurt einasta vandamál.
Vandamálið er ekki innsti hringurinn, vandamálið er umfangsmeira, t.d. fólk á leikvöngunum sem reynir að nota eitthvað gegn þér, og það myndi pottþétt gerast.
Það er mjög svekkjandi, en við verðum öll að vinna í þessu, að ganga úr skugga um að svona tegund af fréttum sé ekki nauðsynleg, að enginn þurfi að gefa frá sér tilkynningu til þess að opna sig,“ sagði hann.
Klopp hrósaði þá Cavallo í hástert. „Ég sá ræðuna hans og hann lítur út fyrir að vera mjög sterkur og gáfaður ungur maður. Ég óska honum alls hins besta.
Ég er honum þakklátur fyrir að hafa gert þetta því nú getum við rætt þetta málefni aftur, og það er augljóslega góð byrjun í átt að breytingu.“