Alls munu fimm leikmenn Atlético Madríd vera fjarverandi þegar liðið sækir Liverpool heim í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld.
Antoine Griezmann verður í leikbanni eftir að hafa fengið beint rautt spjald í fyrri leik liðanna í B-riðlinum fyrir rúmum tveimur vikum.
Þá eru þeir Marcos Llorente, Thomas Lemar, Geoffrey Kondogbia og Stefan Savic allir frá vegna meiðsla og geta því ekki tekið þátt í leiknum.
Hjá Liverpool eru bæði Naby Keita og James Milner frá vegna meiðsla.
Á hinn bóginn tóku þeir Fabinho og Thiago fullan þátt í æfingum í gær og í fyrradag og er reiknað með því að að minnsta kosti annar þeirra verði með í leiknum í kvöld og hugsanlega báðir.