Liverpool er komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir öruggan 2:0-sigur á Atlético Madrid á Anfield í kvöld. Liverpool er með fullt hús stiga eftir fjóra leiki.
Um leið og Diogo Jota kom Liverpool yfir á 13. mínútu með skalla eftir sendingu frá Trent Alexander-Arnold var ljóst í hvað stefndi. Átta mínútum síðar bætti Sadio Mané við marki, aftur eftir sendingu frá Alexander-Arnold.
Vont varð verra fyrir Atlético Madrid á 36. mínútu þegar Felipe fékk beint rautt spjald fyrir brot á Fabinho. Felipe neitaði að ganga í átt að dómaranum eftir brotið og fékk að launum reisupassann.
Liverpool var mun líklegra til að bæta við mörkum í seinni en fleiri urðu mörkin ekki. Luis Suárez kom boltanum í mark Liverpool um miðbik seinni hálfleiks en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
Liverpool er með 12 stig í B-riðil, Porto er í öðru sæti með fimm, Atlético Madrid í þriðja með fjögur og AC Milan er í fjórða og neðsta sæti með aðeins eitt stig.