Norska knattspyrnufélagið Sogndal hefur sent frá sér tilkynningu þar sem kærum þökkum er skilað til allra þeirra sem hafa veitt auðsýndan stuðning vegna atviksins þar sem Emil Pálsson fór í hjartastopp í leik í B-deildinni þar í landi á mánudag.
„Takk kærlega fyrir stuðninginn. Við erum auðmjúklega þakklát í erfiðri stöðu. Knattspyrnudeild Sogndal vill þakka fyrir þann gífurlega stuðning sem hún hefur fengið vegna atviksins sem tengist Emil Pálssyni á Fosshaugane-vellinum í gærkvöldi [í fyrrakvöld].
Emil er vakandi og líður vel miðað við aðstæður. Hann mun gangast undir frekari rannsóknir og fá frekari meðhöndlun á Haukeland-háskólasjúkrahúsinu á næstu dögum.
Sérstaklega viljum við þakka heilbrigðisstarfsfólki sem brást fljótt og fagmannlega við á vellinum. Einnig viljum við þakka áhorfendum fyrir þá virðingu sem þeir sýndu á meðan þessu stóð.
Nú er mikilvægt að félagið fái hugarró til þess að einbeita sér að leiknum um helgina,“ sagði í tilkynningunni.
Emil fór í hjartastopp í leik Sogndal gegn Stjördals-Blink í norsku B-deildinni í knattspyrnu á Fosshaugane-vellinum í Sogndal á mánudagskvöld, en atvikið átti sér stað eftir tólf mínútna leik.
Hann var endurlífgaður á vellinum og var svo fluttur með sjúkraflugi á Haukeland-háskólasjúkrahúsið í Bergen, en læknir Sogndal ferðaðist með honum til Bergen ásamt sjúkraflutningamönnum.