Sogndal þakkar stuðninginn vegna Emils

Emil Pálsson (t.h.) í leik með FH sumarið 2019.
Emil Pálsson (t.h.) í leik með FH sumarið 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norska knattspyrnufélagið Sogndal hefur sent frá sér tilkynningu þar sem kærum þökkum er skilað til allra þeirra sem hafa veitt auðsýndan stuðning vegna atviksins þar sem Emil Pálsson fór í hjartastopp í leik í B-deildinni þar í landi á mánudag.

„Takk kærlega fyrir stuðninginn. Við erum auðmjúklega þakklát í erfiðri stöðu. Knattspyrnudeild Sogndal vill þakka fyrir þann gífurlega stuðning sem hún hefur fengið vegna atviksins sem tengist Emil Pálssyni á Fosshaugane-vellinum í gærkvöldi [í fyrrakvöld].

Emil er vakandi og líður vel miðað við aðstæður. Hann mun gangast undir frekari rannsóknir og fá frekari meðhöndlun á Haukeland-háskólasjúkrahúsinu á næstu dögum.

Sérstaklega viljum við þakka heilbrigðisstarfsfólki sem brást fljótt og fagmannlega við á vellinum. Einnig viljum við þakka áhorfendum fyrir þá virðingu sem þeir sýndu á meðan þessu stóð.

Nú er mikilvægt að félagið fái hugarró til þess að einbeita sér að leiknum um helgina,“ sagði í tilkynningunni.

Emil fór í hjarta­stopp í leik Sogndal gegn Stjör­dals-Blink í norsku B-deild­inni í knatt­spyrnu á Foss­hauga­ne-vell­in­um í Sogn­dal á mánudagskvöld, en atvikið átti sér stað eft­ir tólf mín­útna leik.

Hann var end­ur­lífgaður á vell­in­um og var svo flutt­ur með sjúkra­flugi á Hauke­land-háskólasjúkrahúsið í Ber­gen, en lækn­ir Sogn­dal ferðaðist með hon­um til Ber­gen ásamt sjúkra­flutn­inga­mönn­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert