Tíu vikna fangelsisvist fyrir kynþáttaníð

Jadon Sancho og Bukayo Saka voru á meðal þeirra sem …
Jadon Sancho og Bukayo Saka voru á meðal þeirra sem urðu fyrir níðinu. AFP

Jonathon Best, 52 ára gamall Englendingur, hefur verið dæmdur í tíu vikna fangelsi eftir að hann gerðist uppvís að kynþáttafordómum í garð ensku knattspyrnumannanna Marcus Rashford, Jadon Sancho og Bukayo Saka.

Best birti myndskeið af sér í beinni útsendingu á Facebook þar sem hann úthúðaði þremenningunum, sem allir eru dökkir á hörund, í kjölfar þess að þeir klúðruðu allir vítaspyrnum sínum fyrir enska landsliðið í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Englands gegn Ítalíu á EM 2020 í sumar.

Ítalía vann vítaspyrnukeppnina að lokum og stóð uppi sem Evrópumeistari.

Það var Best ekki sáttur við og viðhafði ýmis rasísk ummæli í garð Rashford, Sancho og Saka í 18 sekúndna myndskeið. Facebook var tilkynnt um myndskeiðið og fjarlægði það þremur dögum síðar.

Best játaði sök um að hafa sent á opinberum samfélagsmiðli stórlega meiðandi eða ógnandi skilaboð og þarf að dvelja í tíu vikur í fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert