Enska úrvalsdeildarliðið Leicester og Spartak Mokva frá Rússlandi skildu jöfn á heimavelli fyrrnefnda liðsins í Evrópudeildinni í fótbolta í kvöld, 1:1.
Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Victor Moses, fyrrverandi leikmaður Chelsea og Wigan, fyrsta markið fyrir rússneska liðið á 51. mínútu. Sjö mínútum síðar jafnaði Daniel Amartey og þar við sat.
Jamie Vardy fékk gullið tækifæri til að tryggja Leicester sigurinn úr víti á 75. mínútu en Aleksandr Selikhov varði frá honum víti. Napólí er í toppsæti riðilsins með sjö stig, Legia Varsjá í öðru með sex, Leicester í þriðja með fimm og loks Spartak í botnsætinu með fjögur.
Landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson varð að gera sér að góðu að sitja á bekknum á meðan liðsfélagar hans í danska toppliðinu Midtjylland unnu 1:0-útisigur á Rauðu stjörnunni frá Serbíu.
Brasilíumaðurinn Evander skoraði sigurmarkið á 56. mínútu en tveir leikmenn Rauðu stjörnunnar fengu rautt spjald í leiknum. Braga frá Portúgal er í toppsæti F-riðils með níu stig eftir 4:2-sigur á Ludogorets í kvöld. Rauða Stjarnan er í öðru með sjö og Midtjylland í þriðja með fimm.