Spænski knattspyrnustjórinn Xavi vill ólmur taka við Barcelona. Miðjumaðurinn fyrrverandi er algjör goðsögn hjá félaginu og talinn vera einn sá besti sem hefur leikið með stórveldinu frá Katalóníu.
Barcelona leitar að eftirmanni Ronalds Koeman sem fékk reisupassann á dögunum. Xavi, sem er 41 árs, lék á sínum tíma 779 leiki og vann 25 stóra titla með Barcelona. Hann lauk ferlinum með Al Sadd í Katar og hefur stýrt liðinu síðan hann lagði skóna á hilluna.
„Ég er búinn að ræða við Barcelona síðustu daga og það eru allir klárir. Vonandi getum við gengið frá þessu fljótlega. Félögin eru að ræða sín á milli, en ég vil fara heim,“ sagði Xavi við BBC.
Hjá Al Sadd eru menn lítt hrifnir af því að láta Xavi fara og hvað þá á miðju tímabili. Turki Al-Ali framkvæmdastjóri undirstrikaði í samtali við fjölmiðla að afstaða Al Sadd væri alveg skýr og hefði alltaf verið. Félagið geti ekki leyft Xavi að fara á „viðkvæmum tíma.“