Svo virðist sem knattspyrnuþjálfaranum Xavi sé að takast að fá sig lausan frá félagi sínu í Katar til að taka við uppeldisfélagi sínu FC Barcelona.
Búist er við því að Barcelona tilkynni um ráðningu Xavi sem knattspyrnustjóra í dag samkvæmt Sport.es.
Fulltrúar frá Barcelona hafa verið í Katar síðan á þriðjudag í þeirri von um að fá Xavi lausan frá Al-Sadd þar sem Xavi hefur starfað síðustu árin.
Xavi hefur sjálfur lagt lóð á vogarskálarnar og óskaði sjálfur eftir því að fá að fara heim. Svo virðist sem það sé að takast þrátt fyrir eldri yfirlýsingar Al-Sadd að slíkt kæmi ekki til greina.
Xavi yfirgaf Barcelona árið 2015 sem leikmaður en síðan hefur liðið ekki unnið Meistaradeildina.