Bjarki segir Xavi hafa búið til liðsheild

Xavi Hernandez.
Xavi Hernandez. AFP

Nú þegar útlit er fyrir að Xavi Hernandez fái stóra tækifærið sem knattspyrnustjóri Barcelona ákvað Sky Sports að finna viðmælanda sem þekkti til Al Sadd, liðsins sem Xavi stýrði í Katar. 

Sky Sports hafði samband við Bjarka Má Ólafsson sem starfaði fyrir Al Arabi í Katar, liðið sem Heimir Hallgrímsson stýrði um tíma. Bjarki er sérfræðingur í ýmis konar greiningu varðandi knattspyrnuna og innti einnig slíka vinna af hendi fyrir KSÍ um tíma. 

Sem leikmaður var Xavi heilinn í leik Barcelona þegar liðið sigraði fjórum sinnum í Meistaradeildinni á árunum 2006 - 2015. Talaði mikið um leikstíl Barcelona opinberlega og varði þá hugmyndafræði sem orðið hafði til hjá Rinus Michels og Johan Cruyff.  Pep Guardiola fylgdi þeim áherslum og leikmenn eins og Xavi ólust upp við þær áherslur í La Masia, akademíunni hjá félaginu. 

En sem þjálfari hefur Xavi einungis stýrt Al Sadd og því þótti Sky Sports við hæfi að ræða við mann sem þekkti vel leikstíl Al Sadd og hefði eytt tíma í að stúdera hann. Þ.e. Bjarka Má Ólafsson. „Ég hef eytt ófáum klukkustundunum í að horfa á liðið og leikstíl liðsins undir stjórn Xavi. Það hefur verið virkilega áhugavert að fylgjast með hans nálgun frá því hann byrjaði og þar til nú vegna þess að fólk gerir sér ekki grein fyrir því sem hann hefur gert fyrir Al Sadd,“ hefur Sky eftir Bjarka Má. 

Bjarki Már Ólafsson ásamt Heimi Hallgrímssyni í Katar.
Bjarki Már Ólafsson ásamt Heimi Hallgrímssyni í Katar. Ljósmynd/twitter-síða Al Arabi

Bjarki segir ennfremur að Xavi hafi greinilega ýmislegt frumlegt fram að færa. Hann hafi ekki reynt að heimfæra leikstíl Barcelona yfir á Al Sadd. 

„Það væri mikil einföldun að halda slíku fram vegna þess að hann hefur komið með ýmislegt frumlegt og spennandi inn í leikstíl liðsins. Ég myndi ekki segja að liðið hafi verið mjög varnarsinnað áður en hann tók við en liðið treysti mjög á einstaklingsframtak. Um leið og hann tók yfir sá maður var áherslan lögð á samvinnu og það kann ég að meta. Hjá Al Sadd er hann með bestu leikmennina í deildinni en hann hefur búið til liðsheild og fær leikmenn til að vinna saman. Honum tekst að ná fram því besta í hverjum og einum en jafnframt þannig að það nýtist liðinu,“ sagði Bjarki en Xavi lék með Al Sadd í fjögur ár þar til hann tók við stjórnartaumunum fyrir tveimur árum og lagði skóna á hilluna frægu. 

„Hann þurfti að taka margar erfiðar ákvarðanir fyrst hann fer úr því að vera leikmaður liðsins yfir í að stýra sama liði. En honum hefur tekist að búa til liðsheild og stjórna leikmannahópnum vel. Það hefur verið frábært að fylgjast með því.“ 

Viðtal Sky Sports við Bjarka Má Ólafsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert