Knattspyrnusamband Evrópu hefur sektað danska knattspyrnufélagið Bröndby um 250 þúsund danskar krónur, eða um fimm milljónir íslenskra króna, vegna framkomu stuðningsmanna félagsins.
Danskir áhorfendur á leik liðsins gegn Lyon í Frakklandi í Evrópudeildinni í septembermánuði brutu reglur á heimavelli franska liðsins með því að kveikja í blysum og skjóta upp rakettum á meðan leikurinn stóð yfir.
Lyon var einnig sektað um 25 þúsund evrur, eða um 3,6 milljónir íslenskra króna, fyrir að hafa ekki getað komið í veg fyrir að áhorfendur færu inn á völlinn.