Sverrir Ingi Ingason landsliðsmaður í knattspyrnu getur á morgun spilað sinn fyrsta leik í hálfan sjöunda mánuð.
Sverrir lék síðast með gríska liðinu PAOK í lok apríl en hann þurfti að gangast undir uppskurð á hné í maímánuði og hefur ekkert leikið frá þeim tíma.
Hann er í leikmannahópi varaliðs PAOK sem á morgun sækir heim varalið Olympiacos í fyrstu umferð grísku B-deildarinnar, sem fer loks af stað eftir langt hlé og frestanir vegna kórónuveirunnar.
Á heimasíðu PAOK er greint frá því að varaliðið fái góðan liðsauka í Sverri en hann var fastamaður í vörn aðalliðs félagsins þar til hann meiddist.